Hafðu samband:

[email protected] (+354) 591 4300

Íslenska auglýsingastofan

Bræðraborgarstíg 16

101 Reykjavík

Open in maps

Er þrítugsafmæli auglýsingastofu merkisviðburður? Það finnst okkur allavega, enda ekki á hverjum degi sem slíkt gerist. En við erum auðvitað ekki alveg hlutlaus.

Það eru ýmsar leiðir til að segja sögu Íslensku, en hún er þó fyrst og fremst sköpunarsaga. Vissulega væri hægt að skrifa þykka bók um allt það góða starfsfólk sem hér vinnur og aðra um fólkið sem hvarf til annarra starfa, en það eru verkin sem allt snýst um. Þrír áratugir af sköpun fyrir óteljandi viðskiptavini, jafnt stóra sem smáa. En saga Íslensku hefst eins og allar góðar sögur: á byrjuninni.

Sögulegt start

Íslenska varð til á fámennum fundi yfir kaffibolla í steinhúsi við Bræðraborgarstíg árið 1988, þegar auglýsingastofurnar Octavo og Svona gerum við sameinuðust. Þar leiddu saman hesta sína þeir Jónas Ólafsson, Ólafur Ingi Ólafsson, Kristján Friðriksson, Jón Karlsson og Friðrik Friðriksson. Þessu má líkja við að hellt hafi verið saman olíu og vatni en úr varð engu að síður magnaður orkudrykkur sem greindi stofuna frá öllum öðrum og skipaði henni strax í fremstu röð. Fjöldi viðskiptafræðinga vann náið með viðskiptavinum í framlínu markaðsstarfsins. Það var nýlunda. Þeirra áhrifa hefur gætt allar götur síðan.

1994

Das

Kristján heiti ég Ólafsson

2013

Icelandair

Bættu smá Orlando í líf þitt

1994

Flugleiðir

Út í sól

Verk að vinna

Frá upphafi hefur Íslenska markað sér sérstöðu með því að leggja ríka áherslu á stefnumótun og ráðgjöf í markaðsmálum. Enda trúum við því að vel útfærð hugmynd sem byggir á rannsóknum, greiningu og góðu innsæi, sé líklegri til að skila viðskiptavinum árangri. Eitt útilokar þó ekki annað og sá ríkulegi fjöldi verðlauna og viðurkenninga sem starfsfólk og viðskiptavinir okkar hafa hlotið fyrir hönnun og hugvitsama markaðssetningu á þessum 30 árum staðfestir það sem við svo sem vissum alltaf: að Íslenska hefur ávallt haft á að skipa hönnuðum og hugmyndasmiðum í fremstu röð.

Nói Síríus

Tópas

Íslenska

Áramót

Gjallarhorn

2003

OG Vodafone

Við erum flottar

Það er alltaf gaman og okkur mikil hvatning þegar eftir því er tekið sem vel er gert. Hefur Íslenska í gegnum tíðina unnið til fjölda verðlauna, í innlendum keppnum jafnt sem alþjóðlegum. Þannig eru þeir ófáir lúðrarnir sem stofan hefur unnið til í gegnum árin fyrir verk sín á Íslandi

2012

Vörður

Veistu hvað þú átt?

Gullegg

Árangurstengd verðlaun eru ekki síður mikilvæg enda eru Effie-gripirnir okkar hafðir í öndvegi og fægðir reglulega. En Íslenska er eina auglýsingastofa landsins sem unnið hefur til Effie-verðlauna á erlendri grundu, alls átján talsins á síðustu sjö árum. Þá erum við ekki síður stolt af hinum eftirsóttu Cannes Lions verðlaunum sem Íslenska vann til fyrir Inspired by Iceland herferðina, mest verðlaunuðu ferðaþjónustuherferð á heimsvísu frá upphafi.

Þá hefur Íslenska m.a. hlotið sæmdarheitið Auglýsingastofa ársins í Evrópu í félagi við samstarfsstofuna The Brooklyn Brothers í London en Íslenska tók þátt í stofnun þeirrar stofu árið 2008.

En án viðskiptavina væri auglýsingastofa ekki neitt. Íslenska hefur átt því láni að fagna að eiga í farsælu og árangursríku viðskiptasambandi við marga af sínum viðskiptavinum um árabil. Fyrir það erum við bæði þakklát og stolt.

Samvinna okkar og Málningar hf. spannar þannig allan starfstíma stofunnar. Hið sama má segja um Flugfélag Íslands, nú Air Iceland Connect, fyrir utan örlítið hlé undir lok níunda áratugar síðustu aldar. Litlu skemur, eða frá því um 1990, hafa Happdrætti DAS og Icelandair treyst stofunni fyrir markaðs- og auglýsingstarfi sínu. Viðskiptasambandið við Toyota er komið á þriðja áratuginn en það hófst árið 1996. Öll eiga þessi fyrirtæki það sameiginlegt að hafa náð frábærum árangri á sínu sviði. Sagan sýnir ótvírætt að þegar traust, trúnaður og gagnkvæm virðing ríkir verður sambandið farsælt.

2012

Cintamani

Við þekkjum tilfinninguna

2013

Toyota

Rauði dregillinn

Mannauður

Starfsfólk Íslensku vinnur af innlifun og ástríðu. Hverju verkefni fylgja nýjar áskoranir og tækifæri til að þroska vinnubrögðin, læra eitthvað nýtt og efla hróður bæði viðskiptavina og stofu.

Á 30 árum hefur mikið safnast í þekkingar- og reynslubankann sem starfsfólk getur stöðugt sótt í og notið. Framlagi þeirra sem komið hafa til liðs við okkur á seinni árum fylgir síðan ferskur blær sem er ómetanlegur hverri auglýsingastofu.

7. September 1988

3. Nóvember 1988

Nú og þá

Starfsfólk stofunnar í dag er drifkrafturinn í næsta kafla í sögu Íslensku. Því má kynnast á öðrum stað á þessum vef. Til að skoða hið sögulega samhengi er forvitnilegt að nefna aðeins örfáa úr hópi hinna brottflognu og sjá hvert leið þeirra hefur legið eftir útskrift með gráðu frá Íslensku akademíunni.

2017

Toyota

Hilux Invincible

Útskrifaðir

Margir stofnuðu eigin stofur: Hilmar, Halla, Anna Svava og Anna urðu fyrst Grafík, þá Fíton og svo Caoz; Stefán Snær, Alli og Viktor urðu Mátturinn og dýrðin; Guðjón Páls varð Grey; Þórmundur Bergsson MediaCom; Loftur og Erla Skaparinn; Viggó varð Jónsson á Le’Macks; Einar Geir E&Co; Ásmundur Helgason og Óli Unnar Dynamo. Leópold Sveinsson endaði á Argus; Jónsi gekk í eigendahóp Ennemm; Kári, Raggi og Sigríður Ása stofnuðu Tvist; Einar Örn stofnaði Quiver og fór einnig að brugga bjór; Daníel og Hörður stofnuðu Döðlur; Maggi og Egill stofnuðu Peel.

Listaspírur eru þónokkrar: Björgvin Halldórsson þarf varla að kynna; Björn Björnsson þekkja þeir sem muna eftir Savannatríóinu, Finnbogi Kjartansson var og er bassaleikari; Friðrik Erlingsson, rithöfundur og gítarleikari; snillingarnir Erpur Eyvindarson og Frosti Gnarr; Jörundur Ragnarsson leikari; Inga Lísa Middelton kvikmyndaleikstjóri; Jón Örn Marinósson fjölfræðingur; Kristján Friðriksson auglýsingaleikstjóri með meiru; Hlín Agnarsdóttir leikstjóri og gagnrýnandi; Gunnar Karlsson myndlistarmaður; Guðbjörg Tómasdóttir tónlistarmaður; Margrét Jónsdóttir listmálari; Gunnar Júlíusson Vestmannaeyingur og Sigtryggur Magnason leikskáld.

2017

Air Iceland Connect

Bókaðu þitt ævintýri fram í tímann

Nokkrir hafa horfið inn í viðskiptaheiminn og til stjórnunarstarfa: Magnús Kristjánsson á Morgunblaðinu og fyrrverandi forseti kirkjuþings; Kristján Geir Gunnarsson framkvæmdastjóri Odda; Jón Jósafat Björnsson hjá Dale; Atli Freyr Sveinsson hjá KS; Halla Helgadóttir, forstöðumaður Hönnunarmiðstöðvar Íslands; Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri SFG; Börkur Arnarson, hjá i8 galleríinu.

Að lokum mætti minnast þeirra sem enduðu í gini pólitíkurinnar: Gunnar Bragi Sveinsson, Dofri Hermannsson og Sóley Tómasdóttir eru þar verðugir fulltrúar fyrrverandi starfsmanna Íslensku síðastliðin 30 ár.

2017

Smáralind

Miðnæturopnun

Þrátt fyrir að allir þessir óviðjafnanlegu einstaklingar og fjölmargir aðrir, ekki síður hæfileikaríkir og góðir starfsmenn, hafi fært sig um set þá hafa skörð þeirra jafnóðum verið fyllt og stofan staðið jafnsterk á eftir.

Sagan heldur áfram

Við kvöddum Laufásveginn fyrr í haust eftir tuttugu og tvö góð ár og höfum nú komið okkur fyrir í reisulegu steinhúsi við Bræðraborgarstíg, hinu sama og hýsti stofnfundinn góða. Upphaflega var húsið byggt undir bakarí og á sér því langa og ilmandi sögu en varð síðar aðsetur bókaútgáfunnar Iðunnar um árabil. Saga hússins tengir því saman handverk og hugverk sem hæfir viðfangsefnum okkar vel — og nú skrifum við næsta kafla í sögu hússins, sem og í sögu Íslensku.

Við hlökkum til að taka vel á móti þér á Bræðraborgarstíg 16.